Að þróa vaxandi hugarfar

Carol Dweck, prófessor í sálfræði við Stanford háskóla, er þekkt fyrir kenningar sínar um mikilvægi þeirrar afstöðu sem nemendur hafa til eigin vitsmuna. Annars vegar séu nemendur sem telji að vitsmunir þeirra séu föst stærð, þeir séu klárir eða þvert á móti heimskir og ekkert sem geti breytt því. Hins vegar séu þeir sem telji sig ekki vera bundna af óbreytanlegum vitsmunum sínum, hvorki miklum eða litlum. Vitsmunir þeirra ráðist af ástundun þeirra í námi. Hún kallar fyrrnefndu afstöðuna „fastmótað hugarfar“ (e. fixed mindset) en þá síðari „vaxandi hugarfar“ (e. growth mindset). Það hugarfar er menntunarlega jákvætt að mati Dweck, hitt ekki.

Growing mindset

Vaxandi hugarfar

Hún  ritaði grein um hvað beri helst að forðast við kennslu með vaxandi hugarfar í huga. Í greininni skrifar Dweck að öllum kennurum sé annt um áhugahvöt nemenda sinna. Þeir vilji auðvitað að nemendur elski að læra, séu úrræðagóðir og haldi áfram þótt á móti blási. Þeim sé með öðrum orðum annt um að vekja með nemendum sínum  vaxandi hugarfar, að þeir gefist ekki upp þótt þeir geri mistök, fái lélegar einkunnir eða þegar það eru hindranir á veginum.

Vaxandi hugarfar er trúin á að þú getir þróað hæfileika þína og hæfni með vinnusemi, góðum aðferðum og hjálp frá öðrum. Fastmótað hugarfar er hinn póllinn og sá sem kennarar vilja síður enda felur það í sér að hæfileikum og hæfni nemenda sé ekki hægt að breyta né bæta. Rannsóknir benda til þess að vaxandi hugarfar hafi jákvæð áhrif á áhugahvöt nemenda, geri þeim kleift að einbeita sér við námið, að þeir gefist síður upp og að námsárangur verði betri.

Kennarar lesa og heyra um þessi jákvæðu áhrif vaxandi hugarfars og reyna að nota aðferðir til þess að styrkja nemendur í því en með misjöfnum árangri. Dweck nefnir hér nokkrar leiðir sem beri að varast:

Að hrósa eingöngu

Það er rétt að hrós í tengslum við námið hefur jákvæð áhrif en það verður að beita þessari aðferð rétt. Hrósið þarf að vera í tengslum við námsferlið og framfarir nemenda annars getur það virkað á gagnstæðan hátt. Kennarar verða að segja sannleikann og taka eftir þegar nemendur eru ekki að sinna náminu og finna leiðir til þess að beina þeim á rétta braut.

Að segja nemendum: „Þú getur allt”

Þetta er gagnlaust loforð ef því er ekki fylgt eftir, sérstaklega þegar nemendur hafa ekki þekkingu, hæfni, aðferðir eða heimildir til þess að takast á við það sem beðið er um. Góður kennari setur nemendum markmið sem hann veit að nemandinn ræður við og hjálpar honum áfram og leiðbeinir honum þar til hann nær  markmiðunum. Því mikil ábyrgð að segja nemendum að þeir geti allt.

Það er verkefni kennarans að skapa umhverfi og aðstæður sem vekja nemendur til vaxandi hugarfars. Það er líklegra til þess að takast ef kennari gefur nemendum:

  • verkefni sem eru raunhæf og hafa meiningu fyrir nemendur
  • heiðarlegt og hjálplegt námsmat
  • ráðleggingar um áframhaldandi eða breyttar námsaðferðir og
  • tækifæri til þess að sýna unnin verkefni og skilning þeirra á efninu.

Að koma í veg fyrir mistök í kennslu

Í fyrsta lagi þá þurfa kennarar að átta sig á því að við erum öll, og þeir sjálfir meðtaldir,  með blöndu af vaxandi og fastmótuðu hugarfari. Fastmótaða hugarfarið kemur í ljóst þegar við erum hrædd við eitthvað. Þetta getur verið hræðsla við mistök, áskoranir og gagnrýni á hæfni okkar svo eitthvað sé nefnt. Fastmótaða hugarfarið getur birst við kennslu á nýju efni, notkun nýrrar kennluaðferðar eða við það að bera sig saman við hæfari kennara. Höfum við nógan innblástur til þes að prófa nýja hluti eða erum við kvíðafull og í vörn?

Ráðleggingar fyrir kennara

Við þurfum að skoða sjálf okkur og hvað hvetur okkur áfram. Takið nokkrar vikur í það að skrá niður hvenær ykkur finnst að ykkur sé ógnað og hvenær þið farið í vörn. Ekki dæma þig og ekki berjast gegn neinu, aðeins að skoða viðbrögðin þín. Í lokin segir hún frá tæki eða forriti sem hefur verið rannsakað og er eitt af fáum tækjum sem eykur áhugahvöt nemenda ef það er notað rétt en er enn í vinnslu svo fylgist með á eduTopia.

Að þróa vaxandi hugarfar
Í stað… Hugsaðu frekar…
Ég er ekki góð/ur í þessu Hvað vantar upp á hjá mér?
Ég gefst upp Ég ætla að nota aðra aðferð
Þetta er fínt svona Get ég gert þetta betur?
Ég get ekki gert betur Það er alltaf hægt að gera betur
Þetta er of erfitt Þetta mun taka mig meiri tíma
Ég geri þetta aldrei rétt Ég læri af mistökum mínum
Ég get þetta ekki Ég ætla að æfa mig
Ég verð aldrei klár Ég skal læra þetta
Þetta virkar ekki Það er alltaf hægt að fara aðra leið
Vinur minn getur gert þetta Ég læri af vinum mínum

 

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.