Er Moodle hvetjandi fyrir skólastarf

Moodle er  eitt algengasta náms- og kennslukerfið í íslenskum skólum á öllum skólastigum. Það kemur við sögu í hefðbundnu skólastarfi ekki síður en í fjarkennslu eða blönduðu námi eins og hér á Menntavísindasviði. Nær öll námskeið eru sett upp í Moodle hvort sem þau eru hefðbundin eða blönduð (stað og fjar). Virkni er auðvitað mismunandi og dæmi um að einungis sé stuðst við Uglu sem hefur reynst ágætlega sé um staðbundin námskeið að ræða.

Náms- og kennslukerfum (sbr. Moodle) er sameiginlegt að vera eins konar söfn ólíkra en samvirkra verkfæra til að auðvelda nám og kennslu á Netinu. Einn mikilvægur kostur er að þau eru að mestu lokuð frá almennri vefumferð. Ýmsir telja þetta þó alvarlegan galla, t.d. hindra notkun samfélagsmiðla sem margir hverjir henta vel í námi og kennslu. Þó er það svo að við Moodle er unnt að fá margs konar íbætur (plugins) sem auvelda notkun slíkra miðla samfara kennslukerfinu.

Spurning mín er hvort Moodle hvetur  til náms fremur en letur. Veldur hver á heldur á hér við eins og í flestu öðru og kemur ýmislegt til sem væri of langt upp að telja í stuttu spjalli. Eftirfarandi vegur þó að mínu mati þungt:

 • Framsetning og skipulag
 • Notkun hinna fjölbreyttu verkfæra eftir því sem við á
 • Samskiptaleiðir nýttar til samvinnu og hópavinnu
 • Að nemandinn finni fyrir nærveru kennarans.

Ég las nýlega skýrslu um þróunarstarf  sem fram fór Grunnskóla Seltjarnarnes. “Tilgangur verkefnisins var að skapa heildrænt og öruggt námsumhverfi á veraldarvefnum fyrir nemendur á unglingastigi í Grunnskóla Seltjarnarnes” eins og segir í  inngangi skýrslunnar. Þar er m.a. gerð grein fyrir niðurstöðum könnunar meðal nemenda um þýðingu verkefnisins fyrir skólastarfið. Könnunin var ef til vill ekki nægjanlega marktæk en eftirfarandi niðurstöður vekja þrátt fyrir það sérstaka athygli:

 1. 91% svarenda telur að tölvunotkun geri námið auðveldara,
 2. 68% finnst að Moodle auðveldi þeim verkefnaskil.
 3. 56% nemenda finnst að Moodle auðveldi þeim að halda utan um námið,
 4. 68% nemenda telja að gæði þeirra námsgreina hafi aukist þar sem stuðst er við Moodle,
 5. 79% nemenda nota Moodle til undirbúnings fyrir próf,
 6. 70$ nemenda telja að nota eigi Moodle í fleiri námsgreinum,
 7. 53% nenda voru fljótir at tileinka sér notkun kerfisins.

Af þessu má ætla að notkun  Moodle virki hvetjandi fyrir nemendur í elstu bekkjum grunnskóla og ég held að það eigi einnig við um önnur skólastig. Miklu máli skiptir þó hvernig kerfið er notað. Ég hef sett fram eins konar gæðaramma sem stuðst er við í HÍ, einkum þó á Menntavísindasviði þar sem samkennsla stað og fjar er algengasta kennsluformið. Einnig hef ég birt gátlista til viðmiðunar við gerð kennsluáætlana og kennslu með Moodle miðað við samkennsluna (ekki samkennslu árganga heldur samkennslu stað- og fjarnema).

Ég  er að safna efni sem ætlað er að vera til leiðsagnar um hvetjandi námsumhverfi með Moodle.