Moodle, Panopto og Adobe Connect

Nú er allt komið á fullt við kennslu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og margir þegar leitað til mín vegna Moodle, Panopto og Adobe Connect. Hér er stutt útskýring á forritunum fyrir þá sem eru í vafa um notkun á þeim:

Moodle er notað fyrir blandað nám og fjarnám og er sjálfstætt náms- og kennslukerfi byggt á opnum lausnum.

Panopto er nýtt upptökuforrit sem notað er til þess að taka upp fyrirlestra og annað efni sem kennarar vilja gefa nemendum aðgang að á Moodle eða Uglu.

Adobe Connect er fjarfundaforrit og því notað fyrir fjarfundi. Allir nemendur og kennarar hafa aðgang með notendanafni sínu og lykilorði.

Helstu vandræðin síðustu daga hafa verið vegna þess að það þarf að bæta við Panopto blokk og tengja það við upptökumiðlarann í nýjum námskeiðum. Kennarar verða að gera það áður en þeir taka upp með forritinu. Ef þið lendið í vandræðum þá getið þið sent mér og Gústavi vefpóst með nafni námskeiðs og nánari útskýringu eftir því sem við á.

Næstu daga mun ég taka upp nokkur myndskeið um notkun Moodle og setja hér inn á vefinn.

Gangi ykkur vel og munið að gefa ykkur í það minnsta 10 mínútur fyrir kennslu til þess að ræsa tölvuna og þau forrit sem þið ætlið að nota.