Námshvati – Að vekja áhugahvöt nemenda

Jennifer GonzalezJennifer-Gonzalez-03-1024x683 bendir á 5 spurningar sem við þurfum að spyrja okkur til þess að auka færni í því að vekja áhugahvöt (e. motivation) nemenda. Hún skoðaði nýjar rannsóknir og bendir á að kennarar þurfi að vita hvað virkar en eins og gerðist með hana þá fór hún ekki alltaf eftir rannsóknum. Hún útskýrir í greininni í hvaða gryfjur hún féll og hvað hægt er að gera til að sporna við því. Alltaf eru einhverjir nemendur áhugalausir í kennslustund og stundum kennum við utanaðkomandi hlutum um eins og tækni, foreldrum eða hreinlega að nemendur í dag eru ekki eins og áður o.s.frv. Hún nýtti upplýsingar úr rannsóknum og setti upp lista til þess að leiðbeina öðrum kennurum:

Samkvæmt nýjum rannsóknum;

 • Sýna nemendur meiri áhuga þegar þeir eiga jákvæð samskipti við kennara
 • Valmöguleikar í námi er öflugur hvati
 • Ef nemendur eiga að gera flókna hluti sem krefjast sköpunar og þrautseigju þá getur jákvæð og neikvæð styrking heft áhugahvöt nemenda.
 • Til þess að halda áhuga nemenda svo þeir gefist ekki upp verða nemendur að trúa að þeir geti bætt sig.
 • Nemendur sýna meiri áhuga á námi sem tengist daglegu lífi.

Jennifer bendir á að það eina sem við kennarar stjórnum er kennslustofan okkar og tími okkar með nemendum. Hér eru spurningar og ábendingar til þess að styðja við kennara sem vilja vekja og efla áhugahvöt nemenda;

 1. Hvernig eru tengsl þín við nemendur?

Jennifer fannst hún eiga góð tengsl við nemendur en þegar hún skoðaði þetta betur komst hún að því að þetta átti við þá nemendur sem standa sig vel. Þeir sem höfðu lítinn áhuga og skiluðu sjaldan verkefnum átti hún ekki eins góð samskipti við. Samskiptin fóru aðalega í það að spyrja af hverju þeir höfðu ekki sinnt náminu og hvað hægt væri að gera til þess að breyta ástandinu.

Það sem hægt er að gera
Að vera meðvitaður um að góð tengsl eru mikilvæg og hægt er að styrkja þau með því að eyða 2 mínútum í 10 skipti, með þeim nemendum sem sýna lítinn áhuga. Í 2 mínútur á að ræða við þá um allt á milli himins og jarðar og þannig kynnast þeim betur og áhugasviði þeirra. Þessi aðferð hjálpar til við að mynda sterkari tengsl og auka áhugahvöt nemenda sem áður sýndu lítinn áhuga.

 1. Hve mikið val hafa nemendur?

Val skiptir miklu máli en gerir vinnu kennarans erfiðari því kennari þarf þá að undirbúa fleiri gerðir námsefnis. Jennifer reyndi að gefa nemendum val en viðurkennir að hún hefði geta gert það betur. Hún bendir á að ef nemendur fá raunveruleg verkefni sem standa yfir í lengri tíma þá er auðveldara að gefa þeim val við verkefnavinnu.

Það sem hægt er að gera
Leyfa þeim að velja sæti eða skipta um sæti, jafnvel sitja á gólfinu eða úti á gangi. Leyfa þeim að velja hvort þau vilja vinna ein eða í hópvinnu og skipta um hóp ef þörf er á. Leyfa þeim að hlusta á hljóðupptökur ef til eru, í stað þess að lesa efnið, breyta tímaröð verkefnis og leyfa þeim að skila verkefnum á fjölbreyttan hátt eins og með upptöku, skjákynningu, ritvinnsluskjali, myndskeiði, myndum o.s.frv.

 1. Ertu að treysta um of á ytri áhugahvöt eða umbun
  Rannsóknir sýna að umbun getur komið að gagni fyrir auðveld verkefni en ef verkefnið er flókið og þarfnast sköpunar nemenda þá er hætta á því að umbun hefti áhugahvöt. Jennifer treysti um of á umbun af því hún virkaði en það er munur á því að fá nemendur til þess að gera eitthvað og á sama tíma efla áhugahvöt þeirra.

Það sem hægt er að gera
Taktu eftir því næst þegar þú leggur fram krefjandi verkefni, með einhverskonar umbun eða afleiðingu, hvort það er hægt að setja það fram á annan hátt. Hér eru tvær leiðir;

 1. Kennari gefur nemendum stærðfræðiverkefni með 12 dæmum. Fyrstu 10 dæmin þarf að klára og síðustu tvö gefa bónus.
 2. Kennari gefur nemendum stærðfræðiverkefni með 12 dæmum. Fyrstu 10 eru auðveld en kennari segist vilja sjá hve margir geta klárað öll dæmin og nefnir að síðustu tvö eru erfiðari. Kennari bætir við: “Þið hafið lært nógu mikið til þess að geta að minnsta kosti klárað annað ef ekki bæði síðustu dæmin.”
  Ef þú notar fyrri leiðina sem er auðveldari og innifelur umbun og sérð að hún eykur ekki áhugahvöt nemenda með minni getu, prófaðu þá að fara seinni leiðina og athugaðu hvort það breytir einhverju.
 1. Notar þú vaxandi hugarfar (e.growth mind-set) eða fastmótað hugarfar (e. fixed mind-set)?

Með því að segja við nemanda: “Þú ert mjög gáfaður,” þá erum við að nota fastmótað hugarfar því þeirra náttúrulegi hæfileiki kom þeim á þann stað og hvetur nemandann ekki áfram. Jennifer notaði þetta mikið í upphafi og hélt að það væri hvetjandi fyrir nemendur að heyra hversu gáfaðir eða klárir þeir væru. Hún komst að því að ef hún fann nákvæmlega hvað nemandinn gerði vel og benti á það, þá hvatti það nemandann áfram: “Þú stóðst þig vel þegar þú bentir hinum á að þeir væru komnir út fyrir efnið og fékkst hópinn til að byrja að vinna að verkefninu.”

Það sem hægt er að gera
Benda nemendum á það smáa sem þau gera sem hefur áhrif á útkomuna og hvetur þau áfram. Útskýra fyrir þeim akkúrat hvað það er sem skipti máli í útfærslu eða útkomu þeirra. Þegar þú gefur nemendum uppbyggilega umsögn sem gerir grein fyrir styrkleika þeirra þá hefur það hvetjandi áhrif. Það er ekki nóg að segja við nemandann: “Leggðu meiri vinnu í þetta,” heldur verður að útskýra nákvæmlega fyrir nemandanum hvað hann þarf að gera eins og að lesa spurninguna hægar eða vinna betur í einhverju atriði og leggja minni áherslu á annað.

 1. Hvað gerirðu til að tengja námsefnið lífi nemenda?

Það skiptir máli að nemandi geti tengt líf sitt og heiminn í kring við námsefni eða hugtök. Jennifer gerði oft þau mistök að leggja áherslu á að komast yfir efnið og verkefnin í stað þess að gera þau þýðingarmikil.

Það sem hægt er að gera
Ritaðu niður nokkur atriði sem tengja efni og hugtök við umheiminn og þekkingu nemenda og komdu því í vana að útskýra þau fyrir nemendum í hvert sinn sem hugtök eru innleidd. Ef þú fjallar um bakteríur þá geturðu nefnt alla staði sem nemendur komast í tæri við bakteríur og fengið þá til þess að ræða þetta nánar, með því að spyrja þá hvernig þetta tengist daglegu lífi. Í einni rannsókn kom það fram að það hafði hvetjandi áhrif á getuminni nemendur þegar kennari bað nemendur um að skrifa í leiðarbók í hverri viku hvernig námið tengdist lífi þeirra.

Í lokin gaf hún þessa ráðleggingu: Mikilvægt er að búa til verkefni sem enda með afurð sem verður til sýnis. Stærri verkefni þar sem útkoman verður til sýnis í skólanum og jafnvel utan skóla hvetur nemendur til að vinna enn betur.

Jennifer bendir á vefsíðuna BloomBoard, þar sem hún skráði heimildir sem hún fann um áhugahvöt nemenda. Á síðunni er hægt að skoða hugmyndir kennara og rannsóknir. Skráning er nauðsynleg og vel þess virði.

Greinin á netinu

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.