Samkennsla eða hvað?

Hugtakið samkennsla hefur verið talsvert notað á Menntavísindasviði eftir að fjarnám og hefðbundið nám var sameinað fyrir nokkrum árum. Hugtakið samkennsla hefur á hinn bóginn verið bundið við samkennslu árganga í grunnskóla og þess vegna er leitað eftir öðru hugtaki yfir þetta kennsluform. Mér finnst þó mikilvægara að skilgreina hvað felst í samkennslu á háskólastigi en einhverri nýyrðasmíð í þessu samhengi. Þótt þetta kennsluform eigi margt sameiginlegt með vel skilgreindum kennsluaðferðum eins og blönduðu námi (blended learning eða hybrid learning) er þó um grundvallar mismun að ræða þar sem nemendahópurinn í heild er bundinn við stað og stund í bland við Netnám. Vendikennsla (flipped), á vissan hátt, er þó algeng í samkennslunni og er í raun afbrigði af blönduðu námi.

Sveigjanlegt nám (flexible learning)  á líklega, samkvæmt skilgreininunni, meira sameiginlegt með samkennslunni. Og þá  liggur e.t.v. beinna við að tala um sveigjanlegt nám eða opið og sveigjanlegt nám á háskólastigi. Það leysir þó engan vanda fyrir hinn almenna háskólakennara sem er eðlilega uppteknari af sinni eigin fræðigrein en stefnum og straumum í kennslu. Þannig ber allt að einu, sérfræðingar í háskólakennslu og annað áhugafólk innan menntunarfræðanna þarf nauðsynlega að leggja einfaldar og skýrar leiðbeinandi línur um kennsluaðferðir í samkennslu á háskólastigi. Þetta á raunar ekki aðeinis við um samkennsluna  heldur yfirleitt í nútíma háskólakennslu.

The Higher Education Academy er sjálfstæð stofnun og á í samvinnu við fjölda háskóla í Englandi, Wales, Scotlandi og Norður Írlandi. Eitt meginverkefnið er stefnumótun í háskólakennslu. E.t.v. er eitthvað þar að sækja í tengslum við stefnumótun Háskóla Íslands um sama efni og vísast samstarf háskóla á Íslandi um nútíma háskólastarf.

Krækjusafn