Skjákynningar með PowerPoint

PowerPoint er mjög notendavænt og öflugt forrit frá Microsoft. Það hefur verið vinsælt í kennslustofum því hægt er að búa til skjákynningar sem innihalda texta, myndir, hreyfimyndir, myndskeið, hljóðskrár, gröf og töflur. * Sækið skjákynningu með leiðbeiningum. *

Myndskeið um notkun PowerPoint fyrir byrjendur og lengra komna (Útgáfa 2013/2016):

  1. Að koma efni til skila á áhrifaríkan hátt   Myndskeið þar sem farið er yfir *merkta efnið fyrir ofan.
  2. Grunnglæra
  3. Síðufótur
  4. Notkun forma/shapes
Mynd í texta

Hér sjáið þið hvernig hægt er að nota mynd sem mynstur í texta, en þetta er sýnt í myndskeiði nr. 4.

 

 

Gott er að kunna að nota grunnglæru (e. Slide Master) í PowerPoint. Grunnglæra er notuð til að stjórna staðsetningu og mótun texta/leturs í glærukynningu og ef sama mynd á að vera á öllum glærum, s.s. merki/lógó fyrirtækis eða vörumerki.

Við uppsetningu á skjákynningu skal hafa í huga að nemendur geta lesið af glærunum og því óþarfi að lesa efnið upp orðrétt án þess að bæta neinu við það og hver glæra má alls ekki innihalda mikinn texta. Gott er að hafa í huga að forritin sem við notum eru hvorki góð né slæm því notkun okkar og kynning á efninu skiptir mestu máli. Hamar getur bæði brotið glugga og byggt höll. Að mörgu er að hyggja og í lokin er mikilvægt að lesa vel yfir kynninguna til að koma í veg fyrir óþarfa stafsetningar- og innsláttavillur.

Hér fyrir neðan eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

Hér eru taldar upp fjórar mikilvægar leiðir til að gera skjákynningar gagnlegar en Stephen M.Kosslyn (2007) kannaði hvernig heilinn vinnur úr myndrænu efni og hvernig við getum notað þessar upplýsingar við gerð skjákynninga;

  1. Mikilvægt er að setja aldrei meiri upplýsingar í myndrænni framsetningu en þörf er á
  2. Leiða athygli áhorfenda að aðalatriðunum og bendir á því tengdu að athyglin dregst að hlutum sem eru öðruvísi
  3. Aldrei birta fleiri en fjóra hluti í einu því heilinn getur einungis unnið með fjóra sjónræna þætti í einu
  4. Uppsetning glæra þarf að vera skipuleg en stundum þarf að endurskipuleggja gögn til þess að hægt sé að átta sig á þeim.

Richard E. Mayer (2014) segir að til þess að koma í veg fyrir að nemendur missi áhugann og að kennarinn missi færis á að koma af stað hvetjandi umræðum, þarf skjákynningin að vera virkilega góð. Mælt er með því að kennarinn tileinki sér söguaðferðina við að búa til skothelda skjákynningu sem haldi athygli nemandans frá upphafi. Kennarinn þarf að kveikja áhuga hjá nemendunum og leyfa þeim að taka þátt í kennslunni. Þeir þurfa að vita af hverju efnið skiptir þá máli og hvað geri það áhugavert. Hann vill meina að skjákynning virki ekki í kennslu nema tillit sé tekið til þess hvernig nemendur læri. Hann segir að fimm viðmiðanir auki líkur á að nemendur njóti góðs af skjákynningum;

Notkun fyrirsagna

Titill hverrar glæru þarf að segja til um hvað glæran inniheldur. Ekki er nóg að nota orðatiltæki eins og „Rannsóknarniðurstöður” því það segir ekki fyllilega um hvað er verið að fjalla. Rita skal heila setningu til lýsingar svo nemendur nái innihaldi glærunnar. Þessu er líkt við lestur dagblaða þar sem við lesum fyrirsagnir til að ákveða hvað við viljum skoða betur því fyrirsögnin segir til um innihaldið. Þetta hefur verið rannsakað af Michael Alley og samstarfsmönnum hans í háskóla í Bandaríkjunum. Niðurstaðan var sú að notkun lýsandi fyrirsagna hafði mikil áhrif þar sem nemendur gátu nefnt og útskýrt innihald skjákynningar að henni lokinni en öfugt var með farið ef notuð höfðu verið orðatiltæki.

Söguaðferðin við gerð skjákynningar

Við glærugerð er nauðsynlegt að hafa allar glærurnar opnar og sjáanlegar. Ástæðan er sú að það verður að vera samhengi með glærunum svo þær verði sannfærandi. Upphaf kynningar þarf að vera þannig að nemendur geti strax tekið þátt svo þeir sjái strax tilganginn með kynningunni og hinar glærurnar og efnið á þeim kemur svo í beinu framhaldi.

Hæfilegan texta á hverja glæru

Of miklar upplýsingar á glæru eru ruglandi. Í PowerPoint er hægt að setja auka texta fyrir neðan glæruna (Notes Page) sem aðeins kennarinn sér og getur hann því lesið það sem hann ætlar að segja með hverri glæru á sama tíma og hann heldur athygli nemenda með örfáum aðalatriðum á glæru. Eftir kennsluna/fyrirlesturinn er hægt að gefa nemendum þennan auka texta til frekari fróðleiks eða gefa þeim aðgang að efninu rafrænt.

Notkun mynda

Texti og töluð orð í skjákynningu eru aðalatriðið og myndir ættu að vera notaðar til aðstoðar við að sjá samhengið.

Skera niður og henda

Allur texti sem ekki tengist viðfangsefninu er best að eyða úr skjákynningunni. Best er ef kennarinn getur fundið út hvaða staðreyndum nemendur hafa áhuga á.

Athygli nemenda er líka mikilvæg. Í hefðbundnum fyrirlestri geta nemendur munað um 70% af efninu fyrstu tíu mínúturnar en síðustu tíu mínútur fyrirlestrar þá er talan komin niður í 20%. Því er mikilvægt að setja aðalatriðin á fyrstu glærurnar.

Fleiri skjákynningaforrit á netinu: