Svona nota ég Adobe Connect

AC-Utsending

Á námskeiðinu Fullorðnir námsmenn og aðstæður þeirra, sem ég kenni í vetur, mun ég nota Adobe Connect í vikulega veffundi; 1 1/2 klst. fundi í Stakkahlíð með þátttöku fjarnema í gegnum Adobe Connect.

Á veffundi reyni ég að hafa tvær myndavélar í gangi í stofunni: Yfirleitt er myndavél með hljóðnema á kennaratölvunni sem tekur mynd yfir kennslustofuna og svo hef ég fartölvu við fundarborð þannig að myndavélin á henni taki mynd af mér, ég hef slökkt á öllu hljóði á fartölvunni. Svo bið ég nemendurna á linunni að vera í mynd, þannig að allir þátttakendur fundarins að sjást á skjámynd Adobe Connect, sem ég varpa upp á tjald.. Mér finnst muna mikið um að fundargestir í Stakkahlíð sjái þátttakendurna sem eru á línunni, þannig myndast betri tilfinning fyrir öllum hópnum.
ACVeffundur3
Ef við viljum nota glærur, hlöðum við þeim oftast upp í Adobe Connect, þá varpar skjávarpinn bæði glærum OG myndium af þátttakendum upp á vegg. Og við fáum betri tilfinningu fyrir því að við séum öll saman í þessu, fjarnemarnir á línunni og við sem erum í kennslustofunni.
Ef við viljum nota einhver önnur gögn, þá deilum við gjarnan skjánum (Share my screen) á kennaratölvunni. Í því tilfelli varpast aðeins mynd af vefnum, hugarkortinu, glærunni eða skjalinu sem við erum að vinna í, upp á tjaldið og þeir sem eru í stofunni sjá ekki lengur þá sem eru á línunni.
Við reynum að stoppa af og til og fá þá sem eru á línunni til að taka til máls, varpa fram spurningum eða bregðast við. Stundum er einhver þeirra með kynningu á afmörkuðu þema.
Fyrir þetta námskeið vel ég gjarnan þetta veffundarform, þar sem sumir nemendur eru á staðnum og aðrir á línunni, einmitt til þess að koma til móts við þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu og vilja gjarnan hitta aðra nemendur og kennara reglulega. Gallinn við þáað form er að þeim sem eru á línunni finnst þeir stundum vera aðeins fyrir utan. Vefstofuformið, þar sem allir eru á línunni, hver við sína tölvu, hefur þann kost að allir standa jafnfætis. Vesfstofur eru líka auðveldari fyrir kennarann, þar sem hann getur einbeitt sér að því sem er að gerast á skjánum. En þegar maður er að senda út það sem gerist í kennslustofu er athyglin á tveimur hópum, og það er þá skiljanlega meira stress á kennaranum. Leið til að minnka það stress er að deila ábyrgðinni, með samkennara, eða nemanda. Ég hef verið að gera tilraunir með að fá nemendur til að axla ábyrgð á tæknimálunum, það er að þróast. Sjá leiðbeiningar sem ég er að vinna í.
Vonandi gefa þessar pælingar þér einhverjar hugmyndir. Ég er að vinna í því að skrifa lýsingar á nokkrum ólíkum sviðsmyndum, sjá hér.