Tag Archives: Vefstofa

Steinunn Chillar með Stúdentum

20150929_145639
Um daginn hélt Steinunn Helga sína fyrstu vefstofu með meistaranemum á 27 manna námskeiði. Á misserinu hittir hún nemendur sína á tveimur staðlotum í tvo hálfa daga í hvort sinn og svo býður hún þeim  upp á vikulega vefstofu í gegnum Adobe Connect.
Á þessari fyrstu vefstofu tók það nemendur nokkurn tíma að kveikja á hljóðnemum og myndavélum og setja upp heyrnartól. Það tók þá líka smá stund að stilla hljóðið, en eftir u.þ.b. 20 mínútur var hægt að hefjast handa.
Svo virtist sem nemendur hafi annað hvort ekki lesið nógu vel leiðbeiningar sem Steinunn sendi þeim fyrir fundinn eða ekki skilið þær. (Sjá fyrirmynd að fundarboði) Ef fundarmenn hafa ekki undirbúið sig og kíkt inn í herbergið fyrir fundinn fer alltaf einhver tími í að hjálpa þeim að finna stjórntækin og stilla þau. Mér finnst gott að hafa skriflegar leiðbeiningar sýnilegar í fundarherberginu þegar þátttakendur koma inn: Þú getur afritað þessar leiðbeiningar og sett í textahólf (Pods-Notes) í þínum fundarherbergjum.
Steinunn fékk nemendur í upphafi til að grípa hljóðnemann og segja til nafns, því bæði er gott að tengja nafn, rödd og mynd saman og nauðsynlegt að rifja upp nöfnin frá því á staðlotunni.
Eftir stuttan inngang, sem Steinunn var reyndar búin að senda þeim á Moodle, skipti hún þátttakendum í þrjá hópa og sendi þau út í sérstök hópvinnusvæði þar sem þau unnu saman í um 20-30 mínútur. Nemendur ræddu saman um tvær rannsóknargreinar sem þeir höfðu lesið og drógu saman aðalatriðin. Steinunn flakkaði aðeins á milli hópvinnusvæðanna til að kanna hvort allt væri í lagi, en lét annars í friði til að ræða málin. Þegar hópavinnunni var að ljúka sendi Steinunn þeim skriflega tilkynningu innan kerfisins um að senn færi hópavinnunni að ljúka og þau myndu færast yfir í aðalsvæði fundarherbergisins.
Allur hópurinn ræddi síðan saman um greinarnar og upplifunina af því að ræða um námsefnið yfir netið.

Eins og sjá má var Steinunn ótrúlega cool að sjá þar sem hún sat í makindum inni á skrifstofunni sinni með nemendur sína á skjánum öll að spjalla saman um áhugaverðar rannsóknargreinar um skólastjórnun.