Veflægt nám, fjarnám, stafrænt nám…

Ráðstefnan „Kennum þeim að læra!“  var haldin þann 10. desember 2015 á Grand hótel Reykjavík.

Hróbjartur Árnason lektor við HÍ, var einn af mörgum góðum fyrirlesurum á ráðstefnunni auk Tryggva Brian Thayer en hann fékk þátttakendur til þess að spá í framtíðinni og Dr. Jyri Manninen prófessor við Háskólann í Austur- Finnlandi hélt erindið „The wider benefits of adult learning and how to foster them. A challenge for web based learning environments.“ Glærur hans þóttu mjög áhugaverðar og getið þið séð þær hér. Ýmsir sérfræðingar m.a. meðlimir í DISTANS-neti NVL frá öllum Norðurlöndunum miðluðu reynslu sinni og þekkingu á tæknistuddu og sveigjanlegu námi.

 

Það sem gerði ráðstefnuna ennþá lærdómsríkari voru svo menntabúðir þar sem kollegar kenndu kollegum á ýmiss forrit sem þeir nota til þess að styðja við nám nemenda. Fjarnám með Adobe Connect var vinsælt umræðuefni og á verkstæði með Alastair Creelman í fararbroddi, var rætt um helstu atriði sem skipta máli við undirbúning fjarfundar. Þau atriði eru hér upptalin:

  • Góð nettenging
  • Að fyrirlesari eða stjórnandi fundar sé vel undirbúinn
  • Að uppsettning sé tilbúin fyrir fundinn og allt efni hafi verið sent til þátttakenda
  • Að þátttakendur hafi undirbúið sig fyrirfram og prófað heyrnatæki/hljóðnema
  • Að markmið fundar séu skýr bæði þátttakendum og stjórnanda
  • Að stjórnandi noti góð tæki (heyrnatól/hljóðnema og vefmyndavél).

Padlet var nefnt sem dæmi um gott forrit til að nota með Adobe connect og deildu þátttakendur hugmyndum sínum stafrænt með forritinu.

Önnur 2 forrit sem þóttu áhugaverð voru m.a. upptökuforritið Educreations, en stærðfræðikennari sýndi þátttakendum nokkur myndskeið sem hann hafði tekið upp, nemendum sínum til ómældrar ánægju. Hitt forritið er Evernote kynnt af grunnskólakennara sem sagði það hjálpa henni mikið í starfi við skipulag sitt.