Þjónustuverkefni: Stjórnun tæknimála með Adobe Connect

Hér er sniðmát að leiðbeiningum fyrir nemendur sem taka að sér þjónustuverkefni á námskeiði þar sem þeir axla ábyrgð á útsendingum í gegnum Adobe Connect. Notið þetta sem fyrirmynd og lagið að fyrirkomulagi ykkar námskeiðs
ACMobile-Learning
Rökstuðningur fyrir því að fá nemendum það hlutverk að vera tæknistjórar við útsendingar í gegnum Adobe Connect:

Tæknin sem flestir eiga á heimilum sínum í dag gerir okkur kleift að gera nám mun sveigjanlegra en áður. Stærsti munurinn er að með hugmyndaríkri notkun tækninnar er hægt að upphefja þær hindranir sem staður og tími setja okkur þegar kemur að því að læra. Fólk getur haft aðgang að námsefni, svo sem lesefni, fyrirlestrum, kennslumyndskeiðum, hlóðupptökum og umræðuþráðum í fartölvum og snjalltækjum hvar og hvenær sem er. Sömuleiðis bjóða fjarfundakerfi uppá að fólk geti tekið þátt í atburðum sem eiga sér stað annað hvort á tilteknum stað og tíma í gegnum tækin sín, annað hvort þegar fundir og kennslustundir eru sendar út í beinni útsendingu og þátttakendur sem komast ekki geta fylgst með mynd og hljóði og jafnvel tekið þátt með því að skrifa eða tala við þátttakendur í kennslustofunni, eða þegar hver þátttakandi situr við sitt tæki, heima, á skrifstofu eða annarstaðar og tala saman og skrifast á í gegnum fjarfundabúnaðinn.

Það hljýtur þá að teljast til nauðsynlegrar hæfni allra sem hafa áhuga á að leiða nám fyrir aðra, með einhverjum hætti, að geta komið slíkum fjarfundum af stað, leitt þá þannig að það leiði til náms og þroska þátttakenda. Þess vegna er kjörið fyrir nemendur á námskeiðum þar sem þessi tækni er notuð að taka að sér að halda utan um tæknihlið útsendinga og öðlast þannig þekkingu og þjálfun sem dugar til að geta stýrt slíkum atburðum sjálf/ur.
Leiðbeiningar fyrir tæknistjóra við útsendingar
Tæknistjóarar við útsendingu hafa það hlutverk að
 1. koma fundi í gegnum Adobe Connect af stað,
 2. tryggja að tæknin sé rétt uppsett og stillt,
 3. stuðla að því að ekki verði tæknilegir hnökrar á meðan á útsendingu stendur,
 4. taka atburðinn upp.

Þar að auki þarf tæknistjóri jafnvel að reikna með að fylgjast með þátttakendum á meðan á útsendingu stendur og stuðla að því að spurningar þeirra og athugasemdir komist á dagskrá á meðan á atburðinum stendur.

Nauðsynlegt er að tæknistjóri taki sér tíma til að læra að nota Adobe Connect: Nauðsynlegar leiðbeiningar um það má finna hjá: menntasmidja.hi.is
Verkefnið felst í að eftirtöldum atriðum sé sinnt í samræmi við markmið atburðarins:
 • Ræða við kennara / fundarstjóra um markmið atburðarins og hvernig sé æskilegt að sinna útsendingu og ræða hvaða mál gætu komið upp
 • Setja upp fundarherbergi fyrir atburðinn
 • Stilla fundarherberginu þannig upp að það henti viðkomandi atburði (ss. mismunandi uppröðun ramma (Pod) fyrir mynd, spjall, glærur o.s.frv).
 • Útbúa í samvinnu við kennara nauðsynlegar uppraðanir á römmum þannig að það henti því sem á að fara fram við atburðinn. (Hér er t.d. átt við að tryggja að uppröðun rammanna henti fyrir útsendingu fyrirlesturs – myndaramminn, glæruramminn, spjallramminn, þátttakandaramminn séu allir í viðeigandi stærð og uppröðun eða við útsendingu samtals að það sé til uppröðun þar sem myndin/myndirnar fylla svo til upp í skjámyndina… o.s.frv.
 • Stilla myndavélum og tölvum upp í kennslurýminu þannig að það gefi þátttakendum á línunni góða mynd af atburðinum
 • Jafnvel ganga um með myndavél (síma, spjaldtölvu) til að gefa myndrænt yfirlit yfir það sem skiptir máli
 • Hlaða (fyrirfram) upp nauðsynlegum gögnum (glærum, myndskeiðum o.s.frv.)
 • Senda þátttakendum slóð í fundarherbergið með ábendingu um að prófa tæknibúnaðinn (þessa hér: https://menntasmidja.hi.is/adobe-connect/connect-fyrir-fundargesti/)
 • Hefja fundinn 15-20 mínútum fyrir tilsettan tíma, þannig að þátttakendur geti stillt búnaðinn sinn og komið sér fyrir
 • Huga að aðferðum, spurningum til að hefja atburðinn, þannig að þátttakendur á línunni finni sig sem hluta og raunverulega þátttakendur í atburðinum
 • Sinna tæknispurningum þátttakenda á línunni
 • Skipta þátttakendum niður í hópvinnusvæði ef þarf (Breakout rooms)
 • Kveikja og slökkva á upptökum og merkja þær með lýsandi nöfnum
 • Vera fulltrúi fjarverandi þátttakenda og minna aðrá þátttakendur á þá og tryggja að spurningar og sjónarhorn þeirra komist að
 • Taka saman skjal með slóðum í allar upptökur og senda til þátttakenda (Þetta er aðeins mögulegt við HÍ ef tæknistjórinn er sjálfur eigandi fundarherbergisins)

Gjarnan má fá nemendur til að skrifa skýrslu / bloggfærslu þar sem þeir gera grein fyrir verkefninu og því sem þeir lærðu. Tæknilega verkefninu fylgir þá kennslufræðileg ígrundun.